Diction
Hringdu í 644 0800
Opið til kl. 17.00

Sölu- og afhendingarskilmálar Diction Ísland ehf.

Gefið út 16.01.2024

1. Gildissvið og skilgreiningar

Meginstarfsemi Diction Ísland ehf. eru þýðingar og prófarkalestur. Eftirfarandi skilmálar gilda um hvers konar þýðinga- og prófarkalestursþjónustu sem unnin er í gegnum Diction Ísland ehf. (hér eftir nefnt „Diction“) fyrir einstaklinga eða lögaðila (hér eftir nefndir „viðskiptavinur“). Skilmálar þessir ganga ávallt framar öllum almennum skilmálum eða skilyrðum viðskiptavinarins, nema að sérstaklega hafi verið samið um annað. Viðskiptavinur leggur til þann texta eða annað (hér eftir nefnt „efni“) sem á að þýða eða prófarkalesa. Fullunnin og þýdd vara kallast hér eftir „verkið“.

2. Samningur, verð og uppsögn

Viðskiptavini er ávallt skylt að veita réttar upplýsingar um umfang efnisins sem á að þýða eða prófaraklesa, áður en samningur er staðfestur, m.a. með því að senda efnið til Diction. Reynist upplýsingarnar frá viðskiptavini ekki réttar og/eða villandi áskilur Diction sér rétt til þess að afturkalla tilboð sitt og gera nýtt í staðinn. Diction metur umfang verkefnisins og reiknar verðlagningu út frá því. Áður en vinna hefst fær viðskiptavinur í hendur tilboð eða staðfestingu á verktöku þar sem fram kemur verð fyrir verkið ásamt upplýsingum um önnur gjöld, kostnað, virðisaukaskatt og/eða annan tilfallandi kostnað. Öll verð eru gefin upp án VSK nema að annað sé tekið sérstaklega fram. Ef ekki reynist unnt að gefa upp endanlegt verð mun Diction veita upplýsingar um hvaða atriði koma til grundvallar við verðlagningu. Tilboð og/eða staðfesting á samningi af hálfu Diction gilda að hámarki í 10 daga, nema annað sé tekið sérstaklega fram.

Hafi samningur komist á en síðar kemur í ljós að hann var byggður á röngum og/eða villandi upplýsingum frá viðskiptavini getur Diction krafist viðbótargreiðslu fyrir þjónustuna eða rift samningnum ef verkið er verulega umfangsmeira en gengið var út frá við tilboðs- og/eða samningsgerð.

Diction áskilur sér rétt til að senda tilboð eða staðfestinu með tölvupósti. Diction getur farið fram á tryggingargreiðslu fyrir verkið, teljist það vera nauðsynlegt.

3. Efni o.fl.

Nema að sérstaklega hafi verið samið um annað skuldbindur viðskiptavinur sig til þess að afhenda efni á stafrænan hátt á einhverju af eftirfarandi sniðum: Venjuleg textaskrá (ASCII snið), PDF skjal, myndaskrá (mynd skal vera á JPEG, PNG eða GIF sniði), RTF-skjal, Microsoft Word skjal eða með tölvupósti án dulkóðunar. Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að koma efninu til Diction á formi sem hægt er að opna af hálfu Diction án þess að þörf sé á að nýta aukaforrit eða álíka.

Geri viðskiptavinur breytingar á efni eftir að samningur hefur verið gerður, þ.m.t. á umfangi verksins, áskilur Diction sér rétt til að breyta umsömdu verði og lengja skilafrest. Diction ber þó ekki skylda til að samþykkja breytingar á efni sem berast eftir að samningur hefur verið gerður.

Áður en samningur er samþykktur ber viðskiptavini að upplýsa Diction skriflega um þær kröfur sem hann gerir til fullunnins verks, þ.m.t. kröfur um orðalag, lagalega málnotkun eða annað. Hafi engar slíkar kröfur verið gerðar fyrir samningsgerð verður litið svo á að þýðandi Diction skuli vinna verkið eftir eigin mati hverju sinni. Athygli viðskiptavina er sérstaklega vakin á því að Diction er ekki skylt að nýta löggilta eða sérmenntaða þýðendur.

4. Unnið verk og afhending

Verkið nær einungis yfir samþykkta þýðingu eða prófarkalestur. Diction áskilur sér rétt, án samþykkis viðskiptavinar, til að gera hvers konar útlitsbreytingar á efninu, þar á meðal breytingar á letri, textastærð, litum, skráarsniði, uppsetningu o.fl. Diction áskilur sér rétt til þess að afhenda verkið í formi textaskrár, Word skjals, PDF skjals, myndaskrár, með tölvupósti eða öðrum heppilegum hætti, nema að sérstaklega hafi verið samið um annað.

Diction er heimilt að nota undirverktaka eða þriðja aðila, þar á meðal sjálfstætt starfandi þýðendur, án þess að samþykki viðskiptavinar þurfi til.

Skilafrestur er samkvæmt samkomulagi við viðskiptavin og kemur fram í samningi. Ef ekki er samið um annan skilafrest, skal Diction skila fullunnu verki eigi síðar en 30 dögum eftir að bindandi samningur hefur komist á. Þjónusta telst vera réttilega innt af hendi sé verkið afhent fyrir miðnætti á þeim degi sem tilgreindur er sem afhendingardagur. Diction er heimilt að fresta verkefnum eða stöðva verk sem þegar eru hafin, hafi viðskiptavinur ekki greitt fyrir áður unnin verkefni.

Hafi utanaðkomandi aðstæður áhrif á getu Diction til þess að standa við umsaminn skilafrest, er Diction heimilt að fresta skilum eftir því sem þörf krefur eða rifta samningi/um ef ekki reynist mögulegt að leysa úr vandanum innan tilhæfilegs frests og án auka kostnaðar eða ef slíkt telst vera nauðsynlegt að öðru leyti. Í slíkum tilvikum getur viðskiptavinur ekki krafist verðlækkunar, skaðabóta, sekta, eða endurgreiðslu. Utanaðkomandi aðstæður í ofangreindum skilningi geta t.d. verið eldsvoði, slys, verkföll, andlát eða veikindi þýðanda, óeirðir, stríð, samgönguvandamál, hvers konar ráðstafanir á vegum opinberra aðila sem geta haft áhrif á verkið eða önnur sambærileg tilvik.

5. Reikningar o.fl.

Diction sendir út reikninga á rafrænu formi. Vilji viðskiptavinur fá sendan reikning á pappírsformi, mun Diction innheimta umsýslugjald, allt að 2.000 kr,-. Einstaklingar greiða fulla upphæð fyrirfram. Fyrir fyrirtæki og opinbera aðila er gjalddagi 14 dögum frá útgáfudegi reiknings. Einungis er hægt að ganga frá greiðslu inn á bankareikning Diction en reikningsnúmer kemur fram á reikningi. Komi ekki til greiðslu á gjalddaga, leggjast dráttarvextir ofan á upphæðina í samræmi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, auk þess sem Diction getur lagt á frekari innheimtukostnað sem kann að falla til vegna innheimtu þóknunar, án frekari tilkynningar til viðskiptavinar. Um hvers konar breytingar á greiðsluskilmálum skal semja skriflega á milli aðila, t.d. með tölvupósti. Reikninginn þarf að greiða á gjalddaga, jafnvel þótt kvörtun hafi verið lögð fram eða þótt verkið sé enn til yfirferðar af hálfu viðskiptavinar.

6. Villur, annmarkar og ábyrgð

Ef viðskiptavinur uppgötvar villur eða annmarka eftir afhendingu verks skal kvörtun send til Diction tafarlaust og eigi síðar en fjórum dögum eftir afhendingu verksins. Kvörtun leysir viðskiptavin ekki undan greiðsluskyldu samkvæmt gerðum samningi.

Kvartanir verða að berast skriflega með tölvupósti til Diction. Í kvörtun skal koma skýrt og skilmerkilega fram hvað í textanum viðskiptavinurinn gerir athugasemd við. Ef um er að ræða villur, mistök eða vanrækslu mun Diction lagfæra efnið skv. lýsingu. Leiðréttingar eru gerðar án endurgjalds ef mistök eru sannanlega rekjanleg til vinnubragða Diction.

Geri viðskiptavinur sjálfur leiðréttingar eða breytingar á verkinu án undangengins samkomulags við Diction eða ef kvörtun berst ekki innan tilskilins tíma fellur réttur til úrbóta, verðlækkunar eða skaðabóta niður. Diction er heimilt að innheimta aukagjald fyrir leiðréttingu verks ef kvörtun berst ekki innan fjögurra daga, nema að samið hafi verið sérstaklega um annað.

Viðskiptavinur má einungis nota þjónustu Diction í löglegum tilgangi. Diction ber ekki ábyrgð á beinu, óbeinu eða afleiddu tjóni sem verður vegna gallaðra eða seinkaðra þýðinga. Viðskiptavinur ber ábyrgð á yfirlestri texta ef þess má vænta að verkið hafi afleiðingar fyrir t.d. heilbrigði, efnahag, stjórnmál, velferð eða mannúðarmál. Að sama skapi ber viðskiptavini að greina Diction frá mögulegum áhrifum textans áður en samningur er undirritaður. Skaðabótaábyrgð Diction er á hverjum tíma takmörkuð við fjárhæð sem svarar til heildarþóknunar hvers verks. Þó er hámarksábyrgð í öllum tilfellum 60.000 kr,-.

Skaðabætur til viðskiptavinar verða lækkaðar eða felldar niður ef sannað er að viðskiptavinur eða einhver á hans vegum hefur verið meðvaldur að tjóninu vegna ásetnings eða gáleysis. Viðskiptavinur skal auk þess takmarka tjón sitt í öllum tilvikum í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.

7. Afturköllun, samningsriftun o.fl.

Sé skiluðu verki verulega ábótavant, hefur viðskiptavinur rétt á að hætta við kaup. Áður en til þess kemur, skal Diction þó fá tækifæri til úrbóta. Komi til samningsriftunar af hálfu viðskiptavinar er honum skylt að eyða öllum eintökum af því verki sem unnið var af Diction. Viðskiptavinurinn má hvorki nota verkið í heild né að hluta.

Diction er heimilt að rifta samningi í heild sinni eða að hluta eða fresta efndum hans ef viðskiptavinur verður gjaldþrota, ef til greiðslustöðvunar kemur eða ef hann er ógreiðslufær að öðru leyti.

Viðskiptavinur samþykkir að vinna hefjist um leið og viðskiptavinur hefur samþykkt tilboð/verkstaðfestingu frá Diction. Sé viðskiptavinur neytandi í skilningi laga nr. 42/2000 um þjónustukaup hefur hann heimild til að afpanta þjónustu sem hann hefur óskað eftir og óska eftir að frekari vinnu verði hætt þótt verk sé hafið. Diction er heimilt að krefjast greiðslu fyrir vinnu sem innt hefur verið af hendi þótt neytandi afpanti þjónustu, svo og fyrir þá vinnu sem nauðsynlegt er að ljúka þrátt fyrir afpöntun. Almennar reglur laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup gilda að öðru leyti í þeim tilvikum sem viðskiptavinur er ekki neytandi í framangreindum skilningi.

Diction getur orðið við óskum viðskiptavinar um slit samnings en er þó ekki skylt að gera það. Diction er í þeim tilfellum heimilt að krefjast greiðslu fyrir hafið verk samkvæmt föstu verðmati. Sé það gert, skal Diction afhenda þann hluta verksins sem unninn var fyrir samningsslit.

8. Trúnaður o.fl.

Allir þýðendur Diction eru bundnir þagnarskyldu um hver þau þýðingar- og prófarkalestursverkefni sem þeir taka að sér. Þetta á einnig við um sjálfstætt starfandi þýðendur sem taka að sér verk fyrir Diction.

9. Hugverkaréttindi o.fl.

Viðskiptavinur ábyrgist að hann hafi öll tilskilin leyfi og réttindi fyrir vinnslu á því efni sem sem á að þýða. Diction ber því ekki skaðabótaskyldu ef til málareksturs kemur vegna höfundarréttar eða annarra hugverkaréttinda sem ná yfir efnið.

Diction, eða aðila á vegum Diction, er heimilt að afrita efnið að því leyti sem nauðsynlegt er við úrvinnslu verksins.

Diction á höfundarrétt á þeim verkum sem fyrirtækið, starfsmaður eða þriðji aðili á þess vegum vinnur, nema að sérstaklega hafi verið samið um annað. Viðskiptavini er skylt að hlíta höfundarrétti og virða hann, þar á meðal með því að vísa í höfund með skýrum hætti þegar það á við.

10. Eyðing gagna og upplýsinga

Diction getur geymt þýðingar fyrir viðskiptavini þeim að kostnaðarlausu. Sé þess óskað, mun Diction geyma gögnin á meðan samþykki er til staðar. Viðskiptavinur getur beðið um að persónulegum gögnum hans verði eytt.

Viðskiptavinur er ávallt beðinn um samþykki fyrir varðveislu gagna. Samþykki viðskiptavinur það skriflega er verkið geymt ótímabundið en viðskiptavinur getur afturkallað samþykki sitt hvenær sem er. Ef viðskiptavinur svarar ekki fyrirspurninni er verkinu að jafnaði eytt eftir 6 mánuði, nema viðskiptavinur taki fram að eyða eigi verkinu fyrr eða síðar.

Komi viðkvæmar upplýsingar fram í verkinu er efninu eytt um leið og verkinu er lokið, nema viðskiptavinur biðji um annað.

Ferlinu telst lokið við eitt af eftirtöldu: 1) samþykkt tilboð frá viðskiptavini, 2) afhendingu þýðingar eða 3) höfnun tilboðs.

Hjá Diction eru gögn sem ekki falla undir persónuvernd, svo sem upplýsingar um tengiliði og greiðslusaga viðskiptavinar, geymd svo lengi sem lögmæt þörf er á. Diction gætir þess að lagaleg réttindi viðskiptavina séu virt, þ.m.t. persónuverdar- og bókhaldslöggjöf.

11. Lagaheimildir og varnarþing

Starfsemi Diction á Íslandi fer eftir íslenskum lögum. Öll mál sem varða skilmála þessa skal reka fyrir Héraðsdómi í Reykjavík.

12. Haldsréttur og samningsveð

Diction áskilur sér haldsrétt í verkinu þar til að kröfur félagsins á hendur viðskiptavini hafa verið efndar að fullu.

Greiði viðskiptavinur ekki útgefinn reikning vegna þjónustu Diction er félaginu heimilt, til að fá útlagðan kostnað eða vinnu sem rekja má til þjónustusamnings við viðskiptavin bætta, að selja verkið með þeim hætti sem talið verður hagkvæmast hverju sinni, á kostnað og áhættu viðskiptavinar og án þess að tilkynna honum það sérstaklega.

Nægi söluverð verksins ekki til fullra efnda á kröfu félagsins á hendur viðskiptavini á félagið rétt á að fá mismuninn greiddan úr hendi viðskiptavinar ásamt vöxtum og öðrum tilfallandi kostnaði. Diction ber að skila mismun söluvirðis og fjárhæð reiknings til viðskiptavinar ef söluvirði verksins er hærra en fjárhæð reiknings ásamt vöxtum og öðrum tilfallandi kostnaði.

13. Önnur ákvæði

Viðskiptavini er óheimilt að hafa samband við starfsfólk Diction eða sjálfstætt starfandi þýðendur, textasmiði og prófarkalesara á vegum Diction í því skyni að kaupa þýðinga-, textagerða- og prófarkalestursþjónustu utan samkomulags við Diction. Ákvæði þetta gildir í 2 ár frá því að Diction skilar af sér síðasta verki til viðskiptavinar. Brot á ákvæði þessu getur varðað skaðabótaskyldu.


Diction Ísland ehf.
Kalkofnsvegur 2, 3. hæð
Hafnartorg, 101 Reykjavík
Ísland
644 0800
Kennitala: 560123-1670
Vsk. Nr.: 147862
visa mastercard bank_transfer